Gott að vita

Útivera: Í leikskólanum Seljaborg fara öll börn í útiveru a.m.k. einu sinni á dag. Eftir veikindi mega börnin vera inni í 1-2 daga en lengur ef um langvarandi veikindi er að ræða. Það er mikilvægt að börnin mæti hress í leikskólann og séu tilbúin til að taka þátt í verkefnum yfir daginn.

Fatnaður barnanna: Mikilvægt er að merkja allan fatnað vel.

Á Seljaborg eru börn í skólafötum. Á haustin sér leikskólinn um að panta skólaföt eftir að hafa sent foreldrum pöntunarlista.

Aðlögun: Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barnið og foreldra þess. Allt er framandi og ókunnugt, góð aðlögun er því mjög þýðingarmikil fyrir áframhaldandi dvöl barnsins í leikskólanum. Á meðan á aðlögun stendur er mikilvægt að barnið fái að skoða sig um og kynnast hinu nýja umhverfi og að foreldrar kynnist starfinu sem þar fer fram og kennurum leikskólans.

Markmið aðlögunnar eru:

  • Að barnið sýni kennurum það traust að leita til þeirra eftir stuðningi og aðstoð.
  • Að barnið og foreldri öðlist jákvæða mynd af leikskólanum.
  • Að traust skapist milli foreldra og kennara.

Starfs- og námskeiðsdagar: Starfsdagar starfsfólks eru 6 á ári. Þessir dagar eru notaðir til að skipuleggja og undirbúa uppeldisstarf leikskólans, endurmeta það starf sem unnið hefur verið og einnig eru þeir nýttir til endurmenntunar starfsmanna. Leikskólinn er lokaður þessa daga og eru þeir auglýstir á skóladagatali sem birtist á heimasíðunni í júní á hverju ári.

Afmæli í leikskólanum: Þegar barn á afmæli er dagurinn þeirra gerður sérstakur. Byrjað er á því að fara með kennara að flagga íslenska fánanum og síðan er haldin samvera með afmælissöng og afmælisbók, sem er uppfull af fallegum myndum eftir börnin á deildinni. Á Gulakjarna fá börnin stjörnu í stað afmælisbókar. Síðasta föstudag hvers mánaðar er síðan haldin sameiginleg kökuveisla á kjarnanum fyrir afmælisbörn mánaðarins. Kökurnar eru bakaðar í leikskólanum.

Afmæli: Það kemur fyrir að börn í sumum tilvikum bjóði heim í afmæli. Við höfum þá reglu að þeir foreldrar sem setja afmælisboð í hólf barnanna hugi að því að bjóða öllum í hóp barnsins. Mikil áhersla er lögð á vináttu í leikskólanum og viljum við ekki að börn upplifi sig útundan.

Samskipti heimilis og skóla: Við leggjum mikið upp úr því að eiga góð samskipti við foreldra og viljum vita ef eitthvað má betur fara. Við erum einnig þakklát þegar foreldrar láta okkur vita þegar allt gengur vel og allir eru sáttir.

Foreldrar eru alltaf velkomnir í leikskólann til þess að fylgjast með og taka þátt í því starfi sem fer fram. Foreldraviðtöl eru að jafnaði tvisvar á skólaárinu en að sjálfsögðu er foreldrum velkomið að fá viðtal hvenær sem óskað er eftir.

Veikindi og fjarvistir: Gott er að fá upplýsingar um veikindi barnanna. Hægt er að tilkynna veikindi í síma 557-6680 en einnig er hægt að senda okkur tilkynningar í gegnum heimasíðuna.

Lús/Njálgur: Ef það kemur upp lús eða njálgur verða börnin að fá viðhlýtandi meðferð áður en þau koma aftur í leikskólann.