Seljaborg

Tunguseli 2, 109 Reykjavík
Sími: 557-6680, Netfang: seljaborg@reykjavik.is
Leikskólastjóri: Ágústa Amalía FriðriksdóttirSeljaborg var þriðji leikskólinn á Íslandi, á eftir Hjalla í Hafnarfirði og Ásum í Garðabæ, til að innleiða skólafatnað árið 2004.

Helstu ávinninga skólafatanna teljum við vera:

  1. Skólafötin jafna aðstöðumun nemenda og minnka þannig m.a. samkeppni.

  2. Skólafötin eru þægileg og styðja nemendur til sjálfshjálpar og gefa þeim þannig fleiri tækifæri til að upplifa sigra.

  3. Í skólafötunum nýtur einstaklingurinn sín betur án „umbúða." Það er persóna og andlit sem einkennir barnið en ekki fatnaðurinn.

  4. Skólafötin efla skólaandann m.a. með því að skapa liðsheild.

  5. Skólafötin spara mörgum foreldrum og börnum þeirra ágreining t.d. á morgnana um hverju skuli klæðast.

  6. Skólafötin einfalda fatakaup og spara slit á öðrum fatnaði.

Í Seljaborg er lögð mikil áhersla á útikennslu og er auðvelt að nýta sér nánasta umhverfi og náttúru til hennar. Flesta ef ekki alla daga ársins fer a.m.k. einn hópur út fyrir skólalóðina í hópatíma. Í stuttu göngufæri við skólann eru m.a. móar, tjörn og dalur með læk og góðum trjáreit. Einnig er farið, sérstaklega með elstu börn skólans, í lengri vettvangsferðir með strætó. Er þá bæði um skipulagðar menningar- og fræðsluferðir að ræða og skemmtiferðir ákveðnar í núinu.

Saga Seljaborgar

Leikskólinn Seljaborg var tekinn í notkun 15. júní 1977 og er hann elsti leikskólinn í Seljahverfi. Í upphafi var hann þriggja deilda leikskóli með aldursskiptum deildum.


Árið 1991 var síðan byggt við leikskólann 12 fermetra herbergi sem ætlað var sem kaffistofa starfsfólks og þá var ein deildin tekin undir sal sem hinir kjarnarnir tveir höfðu þá aðgang að.


Árið 2001 urðu breytingar á starfsemi Seljaborgar þegar Hjallastefnan var innleidd af þeim Ágústu Friðriksdóttir sem þá varð leikskólastjóri og Jensínu Eddu sem varð aðstoðarleikskólastjóri. Sú breyting gekk afar vel fyrir sig og hefur Seljaborg unnið farsællega í anda þeirrar stefnu síðan.
Í dag er Seljaborg þriggja deilda leikskóli sem hefur það að leiðarljósi að mæta hverju barni eins og það er og virða og viðurkenna ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga. Einnig að virða valfrelsi og ólíkan áhuga barna og hlúa á víðfeðman hátt að velgengni allra.